• Druslugangan

Druslugangan 2017 → Anna Katrín, Glódís Tara, Halla Ólöf og Nína Rún

Þú kvelur okkur ekki lengur. Við erum frjálsar frá glæpum þínum. Við höfum öðlast rödd. Og af því við erum frjálsar ætlum við að segja frá því hvað þú gerðir okkur. Þú rændir okkur æskunni. Þú rændir okkur frelsinu. Þetta er OKKAR líf og OKKAR saga. Hvorki þú, lögfræðingur þinn né vanhugsuð lög geta þaggað niður í okkur. Við eigum þessa sögu. Við eigum okkur sjálfar. Við erum frjálsar. Við ætlum okkur að yfirstíga þær hindranir sem þú settir inn í líf okkar. Og hluti af því er að koma í veg fyrir að þú gerir nokkurri manneskju slíkt aftur. Við ætlum að halda áfram að öskra, æpa, stappa niður fótum og veifa höndum – HAFA HÁTT – þar til fólkið sem fer með lögin í landinu heyrir. Við ætlum að segja sögur okkar öðrum til varnaðar. Við getum engan vegin sætt okkur við að þú hafir aldrei viðurkennt að hafa gert nokkuð rangt og starfir með því viðhorfi við að framfylgja lögum landsins.


Með gjörðum þínum þaggaðir þú niður í dómgreind okkar. Þú gekkst á rétt okkar til nándar við annað fólk. Með úthugsuðum og lævísum hætti rændirðu okkur getunni til að treysta. Okkar æðsta takmark var að finna jafningja sem við gætum treyst fyrir lífi okkar og limum. Þú vissir það og lékst þér að okkur eins og brúðumeistari sem veigraði sér ekki við að nota sín eigin börn sem tálmyndir og braust þar með á þeim líka.


Þú fékkst okkur til að efast um hvað væri satt og rétt. Þú raufst eðlilegt þroskaferli okkar. Gjörðir þínar urðu til þess að við óttuðumst að eignast börn. Þú fékkst okkur til að trúa því að við værum annars flokks. En nú vitum við að við erum framtíðin sem breytir heiminum – til hins betra. Ef við stöndum uppi í hárinu á þér.


Til þeirra sem sækjast eftir að hafa vald í þjóðfélaginu. Þið sem sitjið á hæstu stöðum og sinnið háum embættum. Þið eigið að ganga í lið með okkur. Þið eigið að vilja réttlæti og gott samfélag þar sem ofbeldi er ekki liðið. Þið ættuð ekki að láta okkur stelpurnar um að leita eftir gögnum sem gætu verið skemmd eða týnd. Þið eigið að taka frumkvæði. Þið eigið að vaka yfir því að lögin séu í lagi og að þau séu rétt framkvæmd. Þið eigið að hafa hærra en við og heimta að þessi skjöl verði fundin og öll nöfnin í minnisbókum níðinganna verði könnuð. Þið eigið að spyrja spurninga. Á ykkar máli heitir það rannsóknarskylda. Þegar einhver sækir um að fá uppreist æru þá eigið þið fyrst að spyrja: Hvernig missti hann æruna?


Síðan ættuð þið að taka lögmannafélagið ykkur til fyrirmyndar og spyrja: „Hefur umsækjandinn náð sátt við brotaþola og samfélagið?“ Við erum ekki Excel-skjal. Virðing okkar felst ekki í fjórum stöðluðum spurningum og undirskriftum fjögurra valinkunnra manna, þar af tveimur leynilegum. Við erum stærri, merkilegri og mikilvægari en það. Við erum framtíð þessa lands.


Við viljum ekki láta hlífa okkur við að talað sé upphátt um glæpi kvalara okkar. Við viljum einmitt að það fái að heyrast hvað okkur var gert svo það endurtaki sig ekki. Við viljum ekki vera ósýnilegar. Við erum ekki ósýnilegar. Og það er okkur sjálfum að þakka. Og fjölmiðlum. Fjórða valdinu. Það hefur verið reynt að þagga niður í okkur. „Látið aumingjans manninn í friði!“ sagði lögmaður. Þetta mega þolendur kynferðisofbeldis þola. Í Vestmannaeyjum um Verslunarmannahelgina mun lögreglan á staðnum tilkynna fjölmiðlum alla glæpi sem þar verða framdir nema nauðganir. Af hverju eru kynferðisglæpir teknir út fyrir sviga? Af hverju ekki íkveikjur, fjármálasvindl eða morð?

Nauðganir eru tilræði við líf fólks sem stundum endar með morði. Við óskum engum þess að vera dregin á hárinu og nauðgað fyrir framan barnið sitt. Við viljum ekki að eitrað verði fyrir neinum svo hann verði dreginn upp í bíl, verði fyrir barsmíðum og hent í sjóinn. Þess vegna höfum við hátt!


Við viljum að allir hafi hátt! Við viljum að pabbar landsins sameinist um að veifa höndum, öskra og hafa hátt. Við viljum að allir ljóstri upp um hræðileg leyndarmál aldanna. Við viljum að mömmur landsins hrópi með okkur. Við viljum að bræður okkar og systur skili líka sinni skömm. ÞAÐ ER KÆRLEIKUR AÐ SEGJA NEI VIÐ NAUÐGUNUM OG NÍÐUM. Við viljum samfélag sem við getum treyst fyrir lífi okkar og limum.


Við viljum ekki að fólk taki fréttum af kynferðisofbeldi eins og hverjum öðrum veðurfréttum. Það er ekki hægt að af-nauðga eða af-myrða. Það eina sem við getum gert er að gera fólk ábyrgt fyrir gjörðum sínum.


Gerum það að hluta samfélagssáttmála okkar að kynferðisofbeldi sé aldrei í lagi. Og endurtökum það! Kynferðisofbeldi er nefnilega aldrei í lagi!


Höfum hátt!

Höfum rosalega hátt!

Druslugangan

(+354) 849 9601

kt. 580711-0730