• Druslugangan

Druslugangan 2015 → Jóhannes Kr Kristjánsson

Komið þið sæl og til hamingju með daginn og þetta frábæra framtak sem skiptir miklu máli í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Það er heiður að fá tækifæri til að tala hér í dag um málefni sem skiptir mig mjög miklu máli.


Frá því ég hóf störf sem blaðamaður fyrir nærri því einum og hálfum áratug hef ég unnið fjölmargar fréttaskýringar um kynferðisbrot.


Þetta eru erfið mál að kafa ofan í og fjalla um. Ógeðið er alltumlykjandi og alltaf skín í gegn viðurstyggð gerandans – sem tældi, svæfði eða yfirbugaði manneskjuna sem hann svo braut á. Og eftir situr manneskja í sárum, bæði andlega og líkamlega og þarf að gera það upp við sig hvort hún leggi í að opinbera sig fyrir fjölskyldunni og svo kerfinu sjálfu – þ.e. lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum – sem oft hefur reynst þolendum kynferðisofbeldis fölsk vörn og fölsk von.


Og einmitt vegna þess að nánasta umhverfi þolandans og kerfið sjálft bregst oft – þá sitja þolendurnir eftir með sjálfsásakanir, kvíða og þunglyndi. Líf þeirra hefur hrunið til grunna og allt sem kallast traust og öryggi er horfið. Sumir leita sér aðstoðar og ná aftur fyrri styrk með aðstoð fagaðila t.d samtaka eins og Stígamóta. En margir velja þá leið að deyfa sig með fíkniefnum og þá getur verið stutt í stjórnlausa neyslu sem endar oft með geðveiki eða dauða. Og á meðan er gerandinn – sá sem nauðgaði eða beitti ofbeldinu – í vinnu, kannski með fjölskyldu, borðar kvöldmat með maka sínum, börnum og jafnvel barnabörnum – horfir á sjónvarpsfréttirnar á hverju kvöldi – og kyssir börnin sín og maka góða nótt áður en hann hverfur inn draumaheim sem er sótsvartur og fullur af viðbjóði.


Í gegnum árin hefur fjöldi fólks leitað til mín og sagt mér frá kynferðisofbeldi sem það varð fyrir. Stundum var ég fyrsti aðilinn sem það treysti fyrir hrikalegri upplifun sem það hafði birgt inni í mörg ár – jafnvel marga áratugi. Mörg þessara mála rötuðu aldrei í fjölmiðla en bara það að finna hugrekki til að tjá sig og treysta einhverjum sem hlustar og gagnrýnir ekki né dæmir – hefur hjálpað mörgum.


Ég ætla að tala aðeins meira um fólkið sem sagði mér frá og treysti mér fyrir brotunum sem aldrei fóru í gegnum réttarvörslukerfið eða rötuðu í fjölmiðla. Þessar sögur hvíla þungt á mér því í sumum málanna eru gerendurnir þjóðþekktir einstaklingar sem dúkka upp í fjölmiðlum reglulega – og ég veit hvað þessir einstaklingar hafa gert og eru kannski enn að gera – nauðga.


Fyrir fjórum árum fékk ég bréf frá konu sem þakkaði mér fyrir að hafa hjálpað sér. Hún hafði horft á umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kompáss um barnaníðinga og sendi mér tölvupóst í kjölfarið þar sem hún sagði frá misnotkun sem hún varð fyrir sem barn. Níðingurinn er tengdur henni fjölskylduböndum. Hún sagði móður sinni frá ofbeldinu en móðirin kæfði málið niður og bannaði henni að segja frá – eða leita til lögreglu. Ég hafði samband við stúlkuna og benti henni á að leita til Stígamóta sem hún gerði og hjá Stígamótum, þessum gríðarlegar mikilvægu samtökum, fékk hún aðstoð sem gjörbreytti lífi hennar.

Ég fékk leyfi konunnar til að lesa beint upp úr bréfinu sem hún sendi mér.

„Í kjölfarið breyttist ég mikið – breyttist úr lítilli vannærðri telpu – í unga konu sem elskar lífið. Ég vil þakka þér, af öllu mínu hjarta, að hafa lesið póstinn frá mér fyrir fimm eða sex árum, tekið upp símann og hringt í mig! Ég vil að þú vitir að þú hjálpaðir mér ómetanlega mikið við það að koma sálarlífi mínu á réttan kjöl, halda áfram með lífið og takast á við stór og spennandi verkefni!“


Þessi saga og margar aðrar hafa hvatt mig áfram sem blaðamann að fjalla um kynferðisbrot, galla í kerfinu og brengluð viðhorf í samfélaginu.

Af hverju í ósköpunum tók móðir stúlkunnar ekki utan um hana, verndaði hana og leitaði til lögreglunnar? Kerfið og samfélagið allt brást henni. Móðir hennar hefði átt að taka utan um hana, verja hana með öllum tiltækum ráðum og kæra málið til lögreglunnar. Það átti að verja stúlkuna en ekki níðinginn.

Við sem samfélag eigum að krefjast þess að kerfið leggi enn meira á sig í rannsókn kynferðisbrota. Þetta kerfi sem á að halda utan um rannsókn á kynferðisbrotum hefur batnað á síðustu árum en það þarf að gera betur – það sýnir tölfræðin.


Við sem samfélag eigum að krefjast þess að þessir svokölluðu Kampavínsklúbbar verði rannsakaðir. Við viljum vita hvort konur séu neyddar til að dansa naktar fyrir dauðadrukkna karlmenn sem kaupa fokdýrar kampavínsflöskur – og peningarnir renna beint til eigenda staðanna sem flytja stúlkurnar til landsins.


Við viljum vita hvort þessar stúlkur séu fórnarlömb mansals. Við eigum að gera þá kröfu sem samfélag að þessir staðir séu stöðugt í rannsókn. Við eigum ekki að láta tækifærislögmenn sem verja eigendur staðanna með lagatæknilegum þvættingi komast upp með að stöðva rannsóknir eða afhjúpanir á þessum stöðum.


Og við þá karlmenn sem ætla sér að fara á Kampavínsklúbb í kvöld til að „skemmta“ sér vil ég segja: Konan sem þú vilt að dansi fyrir þig er sjálf dóttir einhvers og kannski mamma lítils barns. Horfðu í augun á konunni sem kannski er neydd til að dansa fyrir þig og sjáðu óttann í augum hennar. Sjáðu hræðsluna. Og horfðu svo á spegilmynd þína – í augum stúlkunnar.

Maður þarf víst að dröslast með sjálfan sig í gegnum þetta blessaða líf. Maður flýr ekki af hólmi heldur tekst á við veruleikann og reynir að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Það þýðir að maður þarf að tala um hlutina og leita eftir aðstoðinni þurfi maður á henni að halda.

Þið – þarna úti sem viljið segja frá – segiði frá. Leitið þið til einhvers sem þið treystið. Farið til fagaðila eða lögreglu. Aldrei hlusta á neinn sem segir ykkur að þegja. Það má ekki gerast. Við gerum þá kröfu sem samfélag að ykkur sé hjálpað alla leið í gegnum kerfið og að kerfið taki utan um ykkur.


Takk – þið hugrökku hetjur sem hafið stigið fram og sagt frá. Það er ykkur að þakka að við stöndum hérna öll í dag – sameinuð og ákveðin í að berjast gegn kynferðisofbeldi.


Niður með þöggunina! Lengi lifi baráttan!

Druslugangan

(+354) 849 9601

kt. 580711-0730