• Druslugangan

Druslugangan 2018 → Helga Elín

Sælar Druslur! Ég heiti Helga Elín. Málið okkar hefur mikið verið í fjölmiðlum undanfarið en það var starfandi lögreglumaður sem braut gegn okkur. Baráttu okkar fyrir réttlæti í því máli er ekki lokið. Þessi maður átti að vera fyrirmynd, hjálp fyrir þá sem sem þurfa á aðstoð að halda. Og er treyst fyrir viðkvæmum málum í lífi fólks meðal annars kynferðisbrotamálum. Þegar ég sagði loksins frá og opnaði þessi sár, þá þurfti ég að tala við ókunnugt fólk um viðkvæma hluti sem tók mikið á mig. Ég fékk líka útskýringar á því hvað ætti að gerast og hvernig málsmeðferðin yrði, en ég skildi samt frekar litið þar sem ég var bara unglingur. Eftir erfitt tímabil þá fékk ég að vita að málið hafi verið fellt niður. Það var mikið áfall. Eftir allt þetta ? ... Niðurfellingunni fylgdu allskonar erfiðar hugsanir og það mest neikvæðar um sjálfan mig og hugsunin um það að ÞÚ Aðalbergur,starfandi lögreglumaður, værir að halda því fram að ég barnið væri að ljúga... Að ég hafi fundið þetta upp hjá mér til að ganga í gegnum alla þessa erfiðleika til þess eins að ljúga upp á þig...... Nei ... Þú áttir að vera maður sem er litið upp til , lögreglumaður sem á að vera fyrirmynd og traustur og þess verðugur að bera starfsheitið lögreglumaður. Lögreglumaður sem á að hjálpa fólki á þeirra viðkvæmustu stundum í lífi þeirra til dæmis vegna kynferðisbrots. Útaf þér var ég mjög hrædd við alla karlmenn, eftir að þú braust á mér hélt ég að það væru allir karlar svona. Ég var yfir höfuð hrædd, hrædd við að sofa ein inni í herbergi, hrædd við myrkrið, hrædd að labba ein heim. ÉG VAR ALLAF HRÆDD. Ég gleymi því aldrei eftir að ég gat ekki lengur þóst vera sofandi og fór að gráta. Hágrátandi og vildi ég fá að hringja í mömmu, varst þú svo rólegur á ógeðslega hátt, sagðir nei og spurðir mig bara “HVAÐ ER AÐ ?” Í kvöldmatnum fyrir þessa ömurlegu nótt man ég eftir að hafa reynt að tala við þig, ég var að reyna að vera montinn við lögreglumanninn og sýna honum hvað ég væri dugleg að borða grænmeti, en um kvöldið þá braustu á mér og braust traustið gagnvart þér .. ... Ég var svo hrædd þegar við vorum í bílnum á leiðinni heim því ég hélt að þú værir ekki að fara að keyra mig aftur heim. Þú átt ekki skilið að vera í lögreglunni, starfinu fylgir mikil ábyrgð og það er ekki eitthvað sem þér getur verið treyst fyrir. Góðir lögreglumenn eiga skilið að þurfa ekki að vinna með mönnum sem ekki er treystandi. Ég er ekki lengur lítil og hrædd og í dag veit ég betur og ég sé alls ekki eftir því lengur að hafa sagt frá, vildi að ég hefði gert það fyrr! Í dag vil ég berjast fyrir því að réttindi barna og annarra þolenda séu ekki brotin í meðferð kynferðisbrotamála. Að réttindi þeirra séu virt, að skýrsla fagaðila séu ígildi sannanagagna í svona málum og börnin njóti vafans en ekki brotamaðurinn eins og var í okkar málum og algengt er með kynferðisbrotamál í dag. Ég vil berjast fyrir því að kerfinu, þessu ómögulega kerfi, verði breytt, allt verði gert til að koma í veg fyrir að menn geti brotið á börnum áratugum saman eins og mörg dæmi eru um í okkar samfélagi. Lögreglan á heldur ekki að bjóða þolendum uppá að þurfa jafnvel að tala við grunaðan kynferðisbrotamann þegar kæra er lögð fram. Við viljum kerfi sem stendur með þolendum og ver börnin okkar. Ég vil ekki að litla stelpan mín, eða nokkurt annað barn þurfi að upplifa þessi viðbrögð sem ég gekk í gegnum, ef eitthvað kemur fyrir! Ég vil skora á alla ráðamenn og þá sem valdið hafa að standa með börnum og þolendum kynferðisofbeldis og gera nauðsynlegar breytingar. Takk fyrir

Druslugangan

(+354) 849 9601

kt. 580711-0730