• Druslugangan

Druslugangan 2019 → Aldís Schram

Gleðilegan dag, kæru landar. Aldís heiti ég Schram. Sú hin sama sem á fyrir svokallaðan föður fyrrum ráðherra og sendiherra er nú hefur verið opinberlega borinn sökum um kynferðisbrot af 23 konum (að mér meðtaldri) og stritar við það að telja þjóðinni trú um almætti mitt, þ.e. að ég hafi allar þessar konur á mínu valdi - þess valdandi að vitnisburðunum um kynferðisbrot hans hefur nú fjölgað nú upp í 43. Þessa sömu rullu þuldi umræddur frammi fyrir þjóðinni árið 2012, af því tilefni að Guðrún Harðardóttir birti þá opinberlega þau bréf sem hann hafði skrifað henni í æsku, þar sem hann m.a. lýsir sér sem „sígröðum geithafri“ sem „serðir án afláts“ konur „í draumaheimum.“ Svo er það ég sem á að heita „geðveik!“ Það er það fagnaðarerindi sem hann ásamt konu sinni hefur keppst við að breiða út allar götur síðan árið 1992, er ég í fyrsta sinni hermdi upp á hann kynferðisglæpi. Með þeim lyktum að ég var nörruð upp á geðdeild Landspítalans, greind á korteri með „alvarlegt ítrkekað þunglyndi“ og „maníu“ (sem er þversögn!) og síðan látin sæta nauðungarvistun, mánaðarlangt, án lagaheimildar, þar sem hún var hvorki borin undir ráðuneyti né dóm eins og bar lögum samkvæmt. Með þeim afleiðingum að þaðan í frá mátti ég mín einskis gegn innrásum lögreglunnar, í fimmgang, í kjölfar þess að ég bar upp á þennan (þá) hæstvirta föður minn fleiri kynferðisbrot gagnvart öðrum (en sjálf mundi ég ekki eftir því hvað hann hafði gert mér fyrr en árið 2002). Það sama ár, nánar tiltekið þann 13. apríl, sneri ég vörn í sókn og tilkynnti kynferðisbrot beiðanda nauðungarvistana minna til lögreglu, af því tilefni að þá voru til gögn sem sönnuðu hvern mann, sendiherrann, hafði að geyma, þ.e. hans eigin bréf til hins móðurlausa stúlkubarns, Guðrúnar Harðardóttur. Með þeim málalyktum að ég, 10 mínútum seinna, var fyrir beiðni móðurinnar, handtekin, og fyrir beiðni föðurins, nauðungarvistuð. Sem hinn háæruverðugi faðir minn síðan hampaði opinberlega, árið 2012, sem sönnun þess að hann væri saklaus af sök um kynferðisbrot gagnvart Guðrúnu Harðardóttur. Þá var mér, sem hafði reynt að gleyma og fyrirgefa (sem var full vinna því einhverra hluta vegna trúðu æ fleiri mér fyrir því sem þeir höfðu liðið af hendi föður míns), nóg boðið. Ég get og hef sætt mig við að vera útskúfuð úr samfélaginu vegna ljúgvitnis foreldranna - af því ég hef það sem máli skiptir - dásamlega dóttur, trausta vini og gefandi starf, en það sem ég hvorki vil, mun, né á að þurfa að sætta mig við er að vera sökuð um það að vera svo illa innrætt að ljúga kynferðisbrotum upp á sjálfan föður minn. Það er rangt og það er óréttlátt. Fyrirgefning er jú holl, en hún á ekki að frýja illgjörðarmenn ábyrgð gjörða sinna. Ég ákvað því að sækja umræddan aftur til saka. En fyrst þurfti ég að fá það tryggt að ég yrði ekki handtekin og nauðungarvistuð fyrir vikið. Því var það að ég, þann 6. september árið 2013, arkaði á fund lögreglustjóra og spurði hann í viðurvist Harðar Jóhannessonar, aðstoðarlögreglustjóra, hvort ég, kynferðisbrotaþolinn, mætti eiga von á því að vera handtekin aftur, ef ég kærði gerandann. Lögreglustjórinn kvað nei við. Síðan lýsti ég því yfir að ég ætlaði að leita réttar míns gagnvart föður mínum, allsendis grunlaus um að umræddur Hörður hafði, árinu áður, kvittað upp á það fyrir umræddan geranda að hvorki hann né kona hans hefði nokkrun tíma „beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi“ mín vegna - sem eru ósannindi eins og lögreglugögn sanna. Nokkrum dögum síðar - eins og við var að búast, gerði móðir mín tilraun til að láta loka mig inni með hringingum sínum til geðdeildar sem og heimilislæknis míns en varð ekki kápan úr því klæðinu þar sem hann tók hana ekki á orðinu og á ég það því þessum lækni mínum að þakka að ég gat mætt í skýrslutökuna, þann 8. oktober árið 2013. Þar rakti ég málavexti ítarlega, frammi fyrir kameru, með vísan í framlagða skriflega skýrslu mína og meðf. sönnunargögn, er sanna aðalkæruefnið sem var „ólögmæt nauðungarvistun.“ Kynferðisbrot kærða - sem hann þá mér vitanlega hafði gerst sekur um að sögn 20 aðila (að mér meðtaldri), gat ég ekki hins vegar ekki kært af þeirri augljósu ástæðu að þau sem hann hafði framið gagnvart mér voru fyrnd. En viti menn, kæru minni var vísað frá af þeirri yfirlýstu ástæðu að kynferðisbrot kærða - sem ranglega eru sögð hafa verið „kærð,“ falli ekki undir kynferðisbrotakafla alm. hgl. og „að öðru leyti“ þyki „ekki efni til að hefja rannsókn út af kærunni.“ Þá ákvörðun staðfesti síðan ríkissaksóknari þann 28. febrúar 2014, þótt svo hann árétti sjálfur í bréfi sínu að ég hefði „tekið fram í skýrslutökunni“ að ég væri að „tilkynna“ um kynferðisbrot kærða en „ekki að leggja fram kæru.“ M.ö.o. byggir þessi niðurstaða á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Því var það að ég fór þess á leit að fá afritun af upptökunni af skýrslutökunni, er ég fékk loks í desember árið 2015. Og þar með fæ ég sannað að rannsóknarlögreglan, í hlutdrægri „samantekt“ sinni á „aðalatriðum“ kæruskýrslu minnar, ýmist rangfærir hana eða leynir aðalatriðum hennar. Þ.e. „aðalkæruefninu“ sem var „nauðungarvistanir.“ Sem hún nefnir ekki á nafn og kallar „sjúkrahúsinnlagnir.“ Og þar með gefur til kynna að kæruefnið sé það að ég hafi lagst inn á sjúkrahús! Eins og síðan ríkissaksóknari, sem kallar nauðungarvistun mína „vistun.“ Er leynir alvöru glæpsins - sem ríkissaksóknari tók ekki til efnisumfjöllunar að öðru leyti en því að hann sagði „mat lækna“ liggja fyrir um „veikindi“ kæranda. Eigi hann við „geðhvarfasjúkdóm“ þá réttlætir hann per se ekki nauðungarvistun enda ætti því samkvæmt að loka inni þrjú prósent þjóðarinnar! Þessi vinnubrögð lögreglunnar og ríkissaksóknara kalla ég brot í opinberu starfi. Látum gögnin tala sínu máli. Tanja, dóttir mín og Helga Baldvins Bjargar, hdl., ætla nú að lesa þau upp. Tanja Dís: Starfsmaður geðdeildar Landspítalans skrifar: „Fékk sprautu gegn vilja sínum kl. 9:00... Leið illa, grét, spurði um barnið sitt. Var reið út í innlögnina og bað um lögfræðing ... mjög meir og viðkvæm. Hefur grátið töluvert ... Fljótlega var sjúklingur orðin mjög stíf í kjálkavöðvum og í tungunni ... átti erfitt með mál og gat varla borðað ... Fékk röng lyf kl. 18:00. Sjúklingur kvartar undan fótapirringi ... Talsvert lyfjuð,... Kvartar yfir slappleika ... er druggeruð töluvert, ör og dómgreindarlaus ... einbeiting er lítil ... Mjög lyfjuð í morgun og slagaði um gangana ... er með kippi í munnvikunum ... Vildi ekki svona ávanabindandi lyf ... Hefur áhyggjur af aukaverkunum af ýmsum lyfjum.“ Hjúkrunarfræðingur skrásetur eftirfarandi: „Þokkalega snyrtileg. Talþrýstingur og er æst og þrætir. Ókurteis á köflum.“ „Ásakanir gagnvart föður. Ekki vitað hvort réttar.“ Geðlæknir skrifar: „ ... hefur verið með ásakanir á sína nánustu eins og stundum þegar hún hefur verið ör og úr raunveruleikatengslum.“ Annar geðlæknir skrifar: „ ... stutt í pirring og æsing sérstaklega ef fjölskyldumál ber á góm. Þá hefur borið töluvert á ranghugmyndum og ásökunum af kynferðislegum toga.“ Sá þriðji skrifar: „Mikil reiði og taumlausar ásakanir í garð fjölskyldu sinnar einkum föður. Óvíst hvort um hreinar ranghugmyndir sé að ræða.“ Enda veitti Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, Aldísi afsökunarbeiðni fyrir hönd Landspítalans þann 11. 11. árið 2014. Helga Baldvins Bjargar, lögmaður: Sú sem hér stendur horfði á upptökuna af skýrslugjöf Aldísar hjá lögreglu frá 2013. Myndbandið er 2 klst og 23 mín. Í tæplega tveggja blaðsíðna skriflegri skýrslu lögreglunnar segir: „Eftirfarandi samantekt var gerð um skýrsluna. Tekið skal fram að stiklað er á aðalatriðum í samantektinni en um smæstu atriði vísast á hljóð- og myndritun skýrslunnar.“ Eftir að hafa bæði lesið lögregluskýrsluna og horft á alla upptökuna vil ég koma nokkrum athugasemdum á framfæri: • Í skýrslunni er margoft ekki greint frá því sem Aldís segir eða rangt farið með frásögn hennar. Mig langar að taka hér þrjú dæmi Á upptökunni segir Aldís: Við vöknuðum allar við hann um nætur - ég náttúrulega hélt bara í asnaskap mínum - ég hef ekki samanburðinn ... að svona væri þetta bara, að maður vaknaði við föður sinn uppi í rúmi hjá sér.“ Í lögregluskýrslunni segir: „Aldís talaði um að [hann] hafi staðið yfir rúmi þeirra ... þegar hún var ung.“ Á upptökunni segir Aldís frá því að hún sé með 20 vitnisburði nafngreindra aðila um kynferðisbrot í skýrslu sem hún leggur fram og segist „vona að lögreglan lesi vitnisburðinn þeirra.” Í lögregluskýrslunni segir: „Aldís talaði mikið um meint kynferðisbrot [hans] gegn öðrum stúlkum og kvaðst hún vera með undir höndum vitnisburði sumra þeirra.“ Á upptökunni segir Aldís: „Við erum 5 sem höfum vaknað við hann um nætur ... Í lögregluskýrslunni segir: „Hún sagði lítillega frá því sem þessar stúlkur hefðu sagt henni.“ Þá eru mörg atvik sem Aldís lýsir í skýrslutökunni sem ekki er greint frá í samantekt lögreglunnar á „aðalatriðum!“ • Í lögregluskýrslunni er ekki greint frá því að það eru ásakanir Aldísar um kynferðisbrot, sem eru í öllum tilvikum aðdragandinn að beiðnum um nauðungarvistanir hennar. • Það er ekki greint frá meintum brotum á reglum varðandi nauðungarvistanir og ólögmætar þvingaðar lyfjagjafir. • Það er ekki greint frá því að sumar beiðnir um nauðungarvistanir eru skrifaðar á bréfsefni sendiráðs þar sem beiðandinn titlar sig sendiherra Íslands. • Í lögregluskýrslunni er dregið mjög úr alvöru sakarefnisins með því að kalla meintar ólögmætar nauðungarvistanir ýmist „sjúkrahúsinnlagnir“ eða „aðgerðir.“ • Það er ekki greint frá meintu ólögmætu húsbroti sem Aldís sætti af hálfu systur sinnar og lögreglu þann 9. apríl 1998. • Það er ekki greint frá því að hið meinta húsbrot er skráð í málaskrá lögreglu sem „aðstoð við erlend sendiráð.“ • Það er ekki greint frá meintri handtöku sem Aldís sætti þann 13. apríl 2002. • Það er ekki greint frá því að sú handtaka átti sér stað 10 mínútum eftir að hún hringdi í lögreglu til að tilkynna um meint kynferðisbrot föður síns. • Það er ekki greint frá því að samþykki ráðuneytisins á nauðungarvistun Aldísar árið 2002, var veitt áður en beiðnin barst ráðuneytinu skv. mótttökustimpli. • Það er ekki greint frá því að allar þessar nauðungarvistanir fóru yfir þann tíma sem lög heimila án þess að fyrir því lægi úrskurður dómara um sjálfræðissviptingu hennar, eins og lög kveða skýrt á um að þurfi. Orðrétt segir í skýrslu lögreglunnar: „Aldís byrjaði á því að segja frá meintum mannréttindabrotum [föður síns] gegn henni er varðar sjúkrahúsinnlagnir hennar. Hún sagði að [hann] hefði í skugga stöðu sinnar sem utanríkisráðherra hér á árum áður beitt sér fyrir því að hún yrði lögð inn á geðdeild og gefin lyf.“ „Aldís fór mikinn um geðheilsu sína í skýrslutökunni og hélt því stakkt og stöðugt fram að [faðir hennar] væri á bak við þær aðgerðir.“ „Hún vildi að lögregla myndi ræða við þolendur [hans] og komast að hinu sanna í málinu.“ __________________________________________________________________________________ Aldís: Hallgrímur Pétursson kvað: Vei þeim dómara, er veit og sér víst hvað um málið réttast er vinnur það þó fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans. Má ég eiga von á réttlátri úrlausn minna mála? Það ræðst af viðbrögðum lögreglustjóra, heilbrigðirsráðherra og dómsmálaráðherra sem hafa fengið gögn í hendur er sanna þessi alverlegu brot í opinberu starfi. Svo þið megið búast við framhaldssögu - en ég lofa ykkur ekki að hún fáist birt! Kæru landar. Það er hægt að sporna gegn kynferðisglæpum með breytingum á núgildandi lögum og setja skýrar reglur til að tryggja framfylgd þeirra. Og ef þeir sem fara með þau völd fyrir okkur, þegja yfir öllu röngu, þá verðum við víst að vinna verkin fyrir þau. Það getum við, ef sameinuð stöndum. Berjumst saman og upprætum kynferðisofbeldi í þessu ástkæra landi okkar! Síðan læt ég með fylgja þetta ljóð, sem fyrirfórst að flytja! HETJAN MÍN Hún þorir að bíða, vona og þreyja þá stund sem ekki aðrir eygja kann ekki að láta bilbug sig beygja né bugta fyrir þeim er hausinn reigja, hún stekkur eftir hjartans helga boði ei hlustar á köllin: „Voði, voði“ og galvösk vígvöllinn geysist á, er guggna hinir og sitja hjá. Það er hetjan mín, hér og nú, hún ert þú, þú, þú, þú, þú ..!

Druslugangan

(+354) 849 9601

kt. 580711-0730