• Druslugangan

Druslugangan 2017 → Hulda Hólmkels

Góðan dag fallega samkoma og gleðilega hátíð.


Ég ætla að byrja á því að biðja ykkur um að treysta mér og framkvæma smá könnun hér og nú. Mig langar að biðja alla hér sem hafa á einhverjum tímapunkti yfir ævina, tekið af sér nektarmynd eða annað kynferðislegt efni, jafnvel þó enginn annar hafi fengið að sjá það, að rétta upp hönd. Ég leyfi mér að efast um að allir sem réttu upp hönd hafi lent í því að nektarmyndum eða kynferðislegu efni hafi verið dreift án samþykkis. Ég leyfi mér að efast um það einfaldlega vegna þess að ég hef sjálf aldrei lent í því.


Þegar ég sendi manni af mér nektarmynd þá vissi ég nákvæmlega hver áhættan var sem fylgdi. Ég vissi hvaða afleiðingar það gæti haft. Ég hef horft upp á manneskju breytast í skuggann af sjálfri sér vegna afleiðinganna sem fylgja stafrænu kynferðisofbeldi. Samt gerði ég það.


Sexting er, á tölvuöld, orðið eðlilegur og stundum daglegur hluti af tilhugalífi fólks. Oft er fólk í sambandi með einstakling sem býr ekki í sama landi, kannski var makinn í útlöndum, eða kannski var bara einhver sæt manneskja sem heillaði.


En við höfum, með þessari litlu tilraun hér í dag sannað að myndirnar sjálfar eru ekki vandamálið. Það er dreifing mynda og myndefnis án samþykkis fólks sem er skaðandi. Sama hver birtingarmyndin er.


Það er auðvelt og jafnvel mannlegt að verða forvitinn þegar umræða sprettur upp um slíkt myndefni í dreifingu. Fyrr á þessu ári bárust fréttir af því að dreifing kynlífsmyndbands sem tekið var upp á salerninu á skemmtistaðnum Austur væri til rannsóknar hjá lögreglu. Mál sem þessi vekja undrun fólks og misjöfn viðbrögð.


Hvernig er fólk svona heimskt? Ef fólk er að stunda kynlíf á almannafæri þá má það alveg kenna sjálfu sér um? Af hverju má ég ekki horfa á þetta? það eru allir búnir að sjá þetta?

Þetta voru spurningar sem vöknuðu hjá mörgum. En hver hefur ekki gert eitthvað heimskulegt um ævina? Hvar liggur línan? Liggur línan í skemmtistaðasleik? Liggur hún í ástaratlotum í íslenskri náttúru á bjartri sumarnóttu? Hvenær hættum við að bera virðingu fyrir einkalífi og líkömum annarra?


Hvenær hættum við að segja “Þú getur sjálfum þér um kennt fyrir að taka þessar myndir?

Allt bendir til þess að kynin taka af sér nektarmyndir eða kynferðislegt efni í jafn miklum mæli, karlmenn jafnvel oftar en konur. Nektarmyndir af körlum fara líka í dreifingu. Þrátt fyrir það eru konur meirihluti þolenda í stafrænum kynferðisofbeldismálum. Það er hluti af enn rótgrónna vandamáli í okkar samfélagi. Vandamáli sem átök eins og druslugangan á þátt í að uppræta.


Það er ekki á okkar ábyrgð sem samfélag að segja fólki hvernig það á að haga eigin líkama. Það er enginn sem getur bannað fólki að senda manneskjunni sem það elskar nektarmynd. Það er hins vegar á okkar ábyrgð hvernig við bregðumst við því þegar brotið er á fólki. Hvort við ætlum að smána einstaklinginn, smætta hann niður þangað til hann er ekkert nema nakinn líkami, opinberaður í leyfisleysi.


Það er á okkar ábyrgð hvort við sitjum hjá og leyfum því að tíðkast að nektarmyndir af unglingsstúlkum séu notaðar eins og fótboltaspjöld.

Það sem gerir stafrænt kynferðisofbeldi frábrugðið öðrum tegundum kynferðisofbeldis er að það getur dúkkað upp aftur og aftur og aftur og aftur. Internetið gleymir engu. Til að mynda er ég enn þann dag í dag að fá ábendingar um að nafnlaust og andlitslaust fólk á netinu sé að óska eftir nektarmyndum af vinkonu minni sem lést fyrir rúmlega þremur árum síðan.


Tæknin breytist hratt og íslensk löggjöf, alveg eins og manneskjan, hefur ekki náð að fylgja henni eftir. Það er miklivægt að hafa í huga að allt sem er sagt og skrifað í dag um stafrænt kynferðisofbeldi verður fljótt úrelt. Ofbeldið er þess eðlis að það þróast með tækninni sem breytist hratt. Íslensk löggjöf hefur ekki náð að fylgja tækninni eftir þegar kemur að því að skilgreina ofbeldi sem á sér stað á netinu, hvort sem um sé að ræða kynferðisofbeldi eða annars konar ofbeldi.


Ég ætla að leyfa mér að enda þetta á tilvitnun í Tinnu vinkonu mína.


Það var brotið á mér og minni friðhelgi með því að opinbera þessar myndir, burtséð frá því hvort ég sendi þær í fyrsta lagi. Það er það sem ég vil minna á. Þeir sem hafa lent í því að nektarmyndir af þeim eru opinberaðar á netinu án þeirra samþykkis eru þolendur. Við þurfum nefnilega ekki bara að kenna fólki að senda ekki af sér nektarmyndir, við þurfum líka að kenna fólki að ef það fær slíkar myndir í hendurnar þá ber það ábyrgð á því að þær séu ekki misnotaðar.


Takk fyrir. Lifi ljósið.

Druslugangan

(+354) 849 9601

kt. 580711-0730