• Druslugangan

Druslugangan 2018 → María Rut Kristinsdóttir

Kæru Druslur!


Það er vissulega sérkennileg tilfinning að standa hér fyrir framan ykkur öll í dag. Ég viðurkenni það fúslega, að ég er meyr, snortin og sjúklega stolt að standa hér og horfa á ykkur, kæru Druslur - getum við byrjað á því að gefa okkur öllum hér á Austurvelli risaklapp og pælum aðeins í því í leiðinni hvað við höfum áorkað í þau átta skipti sem gangan hefur verið gengin!


Druslugangan með öllum sínum töfrum hefur í enn eitt skiptið tekist að hrífa mig inn í allan þann kraft sem umlykur okkur á meðan við göngum saman, hönd í hönd og berjumst gegn ofbeldi. Ég man það eins og það hafi gerst í gær, þegar ég þorði í fyrsta skipti að fara í Druslugönguna. Það var sumarið 2013. Þriðja gangan í uppsiglingu og ég var beðin um að taka þátt í skipulagningunni og að sinna því hlutverki að vera talskona göngunnar það árið. Mér fannst það auðvitað fullkomlega absúrd, að fá inn manneskju sem hafði enga reynslu af göngunni, hvað þá að treysta mér fyrir slíku verkefni. Ég hafði þá stuttu áður í fyrsta skipti skrifað opinberlega um afleiðingar ofbeldisins og opinberað í leiðinni það sár sem ég var þá að kljást við. Sjálfstraustið var í molum, ég var rétt farin að þora að tjá mig aðeins um það ofbeldi sem ég varð fyrir sem barn af hálfu uppeldisföðurs míns.


Ég hafði vissulega sagt nánustu fjölskyldu og vinum frá því nokkrum árum áður en annars ekki mikið viljað tjá mig um eitt eða neitt, bara beit á jaxlinn og harkaði af mér. Lokaði á allar tilfinningar og trukkaði mig í gegnum dagana. Ég hafði frá 17-19 ára aldri farið í gegnum allt það hefðbundna í réttarvörslukerfinu, þið vitið, segja frá ofbeldinu, maðurinn viðurkenndi, kæruferli fer í gang, maðurinn neitaði, tvö ár líða og maðurinn er ákærður, en svo fer málið fyrir dómstóla, tíminn heldur áfram að líða, stoðirnar veikjast, myrkrið tekur yfir á meðan og svo kemur niðurstaðan - sýknun. Orð á móti orði. Þið þekkið þetta væntanlega sorglega mörg.


En þarna sumarið 2013 var ég nýfarin að finna einhvern kraft sem ég vissi að ég yrði að beisla og var mögulega í fyrsta sinn tilbúin að horfast alveg í augu við svarta köggulinn sem hafði fengið að grassera inní mér alltof lengi. Ég vissi að ég gæti mögulega nýtt þá reynslu sem ég átti til góðs og það er það sem ég vildi gera af öllu hjarta. Með hjálp Drusluteymisins, sem ég elska af öllu hjarta og með því að fara í ótal viðtöl til að ræða mikilvægi göngunnar og þess að uppræta ofbeldið fann ég að hægt og rólega gat ég skorið af mér þau þykku lög sem ég var búin að smyrja utanum mig og ég berskjaldaði mig alltaf meir og meir. Það var dýrmætt.


Heilunin mín fólst í því að tjá mig. Fólst í því að hætta að skammast mín og fela mig. Vera með faðminn opinn og taka stöðunni eins og hún er. Ég áttaði mig fljótt á því að það væru fullkomlega taktísk mistök að loka allar tilfinningar inni og þykjast vera ægilega hörð gella sem átti erfitt með einlægni og fór að temja mér að leyfa mér að vera í svolitlu flæði. Tilfinningar eru nefnilega eins og suðupottur, ef maður setur lokið á - þá mun alltaf flæða uppúr. Það er miklu betra að leyfa suðunni bara að koma upp, og stundum vella útum allt en síðustu misserin hefur suðan bara verið nokkuð stabíl og ekki mikið um slettur og vesen.


En aftur að Druslugöngunni..


Þróun göngunnar hefur verið ótrúleg. Frá því að þurfa að verja öllum stundum í að verja tilvist göngunnar fyrir fólki sem ekki aaalveg tengdi við konceptið og þurfa án gríns að taka nokkur deböt í dag um að fólk geti víst alveg verið druslur, það sé ljótt orð sem við séum að reyna að endurskilgreina í eitthvað fallegt, yfir í að flestum finnist gangan bara vera sjálfsagt mál og mikilvægur liður í baráttunni gegn ofbeldi.


Í göngunni hef ég séð mæðgur haldast í hendur, feðga haldast í hendur, feður leiða dætur sínar, vinahópa í faðmlögum, tár á hvörmum, gæsahúð, stolt, afa setja druslulímmiða á derhúfuna sína, gamla frænku ákveða að kaupa bol sem stendur á “ég mun ekki þegja” í stað þess að kaupa “ég mun standa með þér bolinn” - því kjarkurinn tekur yfir þegar við erum öll saman og svo ótal mörg önnur móment sem ég geymi í hjartanu.


Í Druslugöngunni eigum við öll fjölskyldu, við erum ekki ein, við stöndum saman. Við öskrum saman og það er það sem er það mikilvægasta. Vegna þess að þögnin sem fékk alltof lengi að ráða för í ofbeldismálum, er langbesti vinur þeirra sem beita ofbeldi. Þeir hafa bókstaflega stólað á þögnina og komist þannig upp með verknaðinn í alltof langan tíma. Þeir fá að vita það, að hér eftir verður ekki þagað, það verður talað um ljótu leyndarmálin, það verður talað um þöggunartilburðina og í krafti fjöldans verða þeir sem beita ofbeldi að horfast í augu við eigin gjörðir og axla ábyrgð. Í mínum huga skiptir mestu máli að við finnum einhvern veginn útúr því hvernig við sem samfélag ætlum að taka á móti þeim sem beita ofbeldi. Eins og staðan er í dag, er ekki mikið rými til að viðurkenna brot, þar af leiðandi er líklega einfaldast að neita bara fyrir brotið og væna viðkomandi um lygar, það býr til ákveðinn spíral sem leiðir af sér þá stöðu að brotaþolinn fær aldrei viðurkenninguna á verknaðnum sem hann þráir, og sá sem beitir ofbeldi sleppur við að axla ábyrgðina. Mig dreymir um samfélag þar sem hægt er að takast á við vandann á annan hátt, mig dreymir um mun kröftugri fræðslu um samskipti og kynlíf - vissuð þið til dæmis að ÞRIÐJUGUNGUR gerenda á Íslandi eru börn í skilningi laga. Það fara 250 börn í gegnum Barnahús á hverju ári. Og flest málanna eru orð á móti orði. Þetta dæmi gengur ekki alveg upp, og með upplýstari umræðu, fleiri Druslugöngum og ef við áttum okkur öll á því að við getum ÖLL haft áhrif, og velt við steinum, þá náum við raunverulegum árangri.


Ofbeldislaust samfélag er vissulega útópía, en það er enginn að fara að segja mér að með tilkomu Druslugöngunanr sé ekki kominn tilvalinn vettvangur til þess að byrja á því að ræða málin, tala við frænkur okkar og frænda, bræður og systur, börnin okkar, ömmur, afa, mömmur, pabba, vinnufélagana, tinder-date-in og hvaðeina um mikilvægi þess að samskipti sé sameiginlegur skilningur á vænginum og vilja. Með Druslugöngunni öðlaðist ég nákvæmelga þetta tækifæri, endurheimti samskipti við mömmu mína og systkini mín, og fékk þá lokun sem ég þurfti. Fyrir það verð ég ávallt þakklát. Í stað þess að eiga marga vonda daga, andvökunætur og martraðir, á ég dásamlegt líf, yndislega eiginkonu og son sem ég fær um að elska af öllu hjarta og vonandi framtíð stútfulla af ást og umhyggju. Ég get með fullri vissu í dag sagt að svarti köggullinn sem ég vísaði í áðan og fyllti magaopið mitt af samviskubiti og skömm, er í dag grátbrosleg minning um manneskju sem eitt sinn hélt að lífið gæti ekki orðið litríkt og fallegt. Það er hægt að ná bata, en til þess þarf maður að horfast í augu við vandann, ráðast að rótum hans og fara skref fyrir skref í gegnum alls kyns hindranir. Ég er ekki að segja að ég sé orðin fullkomlega heil, en ofbeldið sem eitt sinn skilgreindi hver ég er, skilgreinir mig ekki lengur. Ég er ekki ofbeldið sem ég varð fyrir. Ég er María Rut Kristinsdóttir, 29 ára gamall Liverpoolaðdáandi, stjórnmálanörd, aktívisti, móðir, eiginkona og drusla.


Nýtum tækifærið, stöndum saman og höldum áfram að rokka heiminn.

Takk fyrir mig!

Druslugangan

(+354) 849 9601

kt. 580711-0730